154. löggjafarþing — 81. fundur,  6. mars 2024.

húsaleigulög.

754. mál
[17:11]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég styð hæstv. ráðherra í öllum sínum verkum við að koma skynsamlegum málum í gegn. Ég fagna því að verið sé að vinna að málum er snúa að framboði á íbúðarhúsnæði sé um skynsamleg mál að ræða. Við vorum að ræða hér um samningsfrelsið og hvernig það takmarkar ráðstöfunarrétt yfir eign og þar með er verið að ganga á stjórnarskrárvarin réttindi. Ég vísaði til þess að ýmislegt í frumvarpinu ætti sér sambærileg rök eins og giltu um leiguþak og leigubremsu og annað slíkt, en ég er fullmeðvitaður um að ekki er verið að leggja það til í þessu frumvarpi. Vonandi verður það ekki lagt til af hálfu hæstv. ráðherra, það væri afar óskynsamlegt.

Það var komið inn á það að menn væru ósammála og ég lendi oft í því í þessum þingsal að aðrir eru ósammála mér. Svo er líka hægt að segja að þar sem fleiri koma saman þá verður vitið ekkert endilega meira. Þó að önnur lönd hafi ákveðið að fara langa leið með þessi mál þá ætti það frekar að vera okkur víti til varnaðar en að við förum að fylgja því eftir umhugsunarlaust.